Ófeigur gengur aftur

Ófeigur, nýlátinn faðir Önnu Sólar, gengur aftur og fer að hlutast til um líf hennar og kærasta hennar, Inga Brjáns. Unga parið ætlar að selja hús hins látna, en Ófeigur er því mótfallinn og vill ekki að þau flytji. Afskiptasemi afturgöngunnar eru slík að Ingi Brjánn bregður á það ráð að reyna að kveða drauginn niður með aðferðum sem hann finnur í gamalli galdrabók. Ókunnugleiki unga mannsins á þessu sviði verður þó einungis til þess að hann vekur upp annan draug, smáklikkaða fyrrum ástkonu Ófeigs, og við það magnast reimleikar í húsinu um allan helming.

Þegar Ófeigur ber sig til við að beita valdi til að varpa konu með miðilsgáfu út úr húsinu, er ljóst að nú duga engin vettlingatök. 

http://visir.is/taeknibrellur-leika-stora-rullu-i-nyrri-draugamynd-/article/2012121019692

http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV48ADE3F2-465D-419A-90A5-0B510032DD3E

http://www.ruv.is/leiklist/kvikmyndaleikstjorinn-agust-gudmundsson

 

Handrit og leikstjórn: Ágúst Guðmundsson

Framleiðendur:
  Anna Katrín Guðmundsdóttir
  Ágúst Guðmundsson

Kvikmyndataka: Bergsteinn Björgúlfsson

Tónlist: Karl Olgeirsson

Í aðalhlutverkum:
  Gísli Örn Garðarsson
  Ilmur Kristjánsdóttir 
  Laddi
  Halldóra Geirharðsdóttir
  Elva Ósk Ólafsdóttir

Fjögurra stjörnu dómur í Morgunblaðinu:

Sitja guðs englar sænginni yfir minni?

Ágúst Guðmundsson er einn reyndasti og farsælasti kvikmyndagerðarmaður þjóðarinnar. Hann á að baki stórgóðar myndir á borð við Mávahlátur (2001) og Með allt á hreinu (1982). Nýjasta mynd hans, Ófeigur gengur aftur, segir af skötuhjúunum Önnu Sól (Ilmi) og Inga Brjáni (Gísla Erni) sem búa í húsi Ófeigs (Ladda), nýlátins föður Önnu Sólar, í miðbæ Reykjavíkur. Ófeigur var óforbetranlegur kvennabósi og drykkjurútur í lifanda lífi en var dóttur sinni og syni (Vigni) ástkær. Eins og nafn hans gefur til kynna er hann seint dauður úr öllum æðum og síður en svo tilbúinn að yfirgefa híbýli sín og börnin. Afleggjararnir vilja selja ættaróðalið og skjóta sínum rótum í nýrri og rýmri húsakynnum en Ófeigur bregst ókvæða við með þvílíkum látum að Ingi Brjánn neyðist í örvilnun til að ráðfæra sig við forna galdraskruddu í von um að geta stemmt stigu við ærslagangi kappans. Þá fyrst verður fjandinn laus því í hálfkákskukli Inga Brjáns leysist gömul ástkona Ófeigs úr læðingi (Elva Ósk). Hann hafði ítrekað giljað hana og ginnt í lifanda lífi og því tekur hún á sig mynd ókindar sem ríður röftum í sturlaðri heift. Ófeigsbörn og tengdasonur verða á endanum að leggjast á eitt við að kveða niður trylltu andana til að eygja von um að endurheimta aftur friðhelgi einkalífs síns og framtíðaráform.
Framvindan er í senn bráðfyndin og oft óþægilega skuggaleg en niðurkvaðning drauganna er kannski full átakalítil miðað við ofsann og tregann sem á undan gengur. Kvikmyndataka og klipping er fumlaus og flæðandi svo myndin er mun meira en leikið handrit þótt leikurinn sé reyndar svolítið hátíðlegur, jafnvel leikhúslegur. Leikarar eru samt sannfærandi og draga af mikilli natni fram áhugaverðar og hlýjar persónur. Myndin er í raun ekki einstök fjölskyldusaga með sértækum persónum heldur fremur glúrin samfélagsrýni í hina þrautseigu íslensku reimleikatrú og óbilandi áhuga þjóðarinnar á að komast í samband við framliðna. Laddi er samur við sig en gamalgróið gervi hans tekur á sig nýjar myndir þegar Ófeigur andsetur bljúgan miðil (Halldóru), tengdason og son með ófreskjulegum afleiðingum. Þessar senur er óborganlega fyndnar en um leið er afar ófrýnilegt að sjá groddaralega Ladda-kæki heltaka aðra »prúðari« leikara. Það er sömuleiðis fremur óbærileg tilhugsun, jafnt fyrir áhorfendur og persónur myndarinnar, að vofa Ófeigs sitji keik, eins og íslensk kvöldbæn kveður á um að guðs englar geri, yfir rúmsæng Önnu Sólar og Inga Brjáns.
Vel útfærðar tæknibrellur eru fyrirferðarmiklar í myndinni og verða giftusamlega aldrei klúðurslegar. Líflegar andsetningar Ófeigs, draugsleg ólæti hans og átök við sviknu ástkonuna heppnast stórvel þótt hugsanlega sé yfirdrifið að birta herfilega glottandi smettið og gneistandi glyrnurnar á Ófeigi ofan af himnum eftir að hann fer yfir móðuna miklu. Leikmynd og búningar eru gædd svipsterkum litum og áferð sem ásamt lýsingu skapa heildstæðan söguheim og ramma inn atburði. Enn fremur öðlast leikmunir eins og vínflaska í glerskáp sem Ófeigur ásælist, á stundum sjálfstætt líf í innskotssenum sem minna um margt á snilldartakta í myndum Hitchcocks.
Ófeigur gengur aftur byggir á sígildri kvikmyndahefð sem skilar sér í vel unninni og fjölskylduvænni gamanmynd. Myndinni er ekki ætlað að valda straumhvörfum í íslenskri kvikmyndasögu með framúrstefnulegri tilraunamennsku eða stuðandi efniviði eins og viðkvæðið hefur verið um innlendar frásagnakvikmyndir undanfarið en hún hreyfir þess í stað - með aðstoð fágaðra tæknibrellna, við að því er virðist óhrekjanlegri hjátrú áhorfenda um að framliðnir séu eilíflega og ekki alltaf blessunarlega yfir og allt um kring.